framleiðslustofa

Má ekkert?

Tjarnargatan arrow down to blog

Inga Óskarsdóttir

DEILA

Það er alltaf gott að vinna með létt grín til að ná til sem flestra þar sem enginn er yfir húmor hafinn. Eða hvað?

Í byrjun september fengum við á Tjarnargötunni þann heiður að skapa herferð fyrir vef Fréttablaðsins, frettabladid.is. Alls samanstendur herferðin okkar að sex auglýsingum og ég fékk þann mikla heiður að leikstýra. Áskorunin var spennandi - enda markhópurinn í þetta skiptið allir - því fréttir eru jú fyrir alla, ekki satt? 

Okkar helsta markmið var að sjálfsögðu að fá meiri straum inn á vefinn og til þess þurftum við að flétta saman tvær kynslóðir í einu kasti. Að koma frettabladid.is inn í fasta netrúntinn hjá yngri kynslóðinni og minna eldri kynslóðina á að allt sem er að finna í blaðinu má einnig finna á vefsíðunni.

Við ákváðum að slá þessu upp í góðlátlegt grín. Í þremur auglýsingum sjáum við miðaldra hjón sem eru að koma sér inn í nýjustu tækni en tekst einhvern veginn alltaf að koma sér í vandræði þegar kemur að snjalltækjunum. Í öðrum þremur sjáum við ungt par sem statt er í heimapartýi en eru svolítið félagslega vandræðaleg svo þau grípa í það að fletta upp nýjustu fréttum til þess að finna umræðuefni og tengjast í gegnum það.

Það er alltaf gott að vinna með létt grín til að ná til sem flestra þar sem enginn er yfir húmor hafinn. Eða hvað?

Eins og auglýsingin birtist í Fréttablaðinu

Auglýsingunum var raðað upp í þá birtingarröð sem virkaði best fyrir framgang sögu beggja paranna. Sú fyrsta sem kom út var auglýsing þar sem eldri konan er að leita að frétt í spjaldtölvunni sinni til að sýna manninum sínum en rekst óvart í takka sem verður til þess að hún póstar klaufalegri sjálfu á Facebook tímalínuna sína. Þar sem þessi auglýsing var fremst í birtingarröðinni var það ljósmynd úr henni sem fékk að prýða forsíðu Fréttablaðsins þann dag sem hún kom út. 

Þessi auglýsing fékk viðbrögð sem við höfðum ekki búist við. Allt í einu loguðu fréttaveiturnar með neikvæðri umfjöllun um auglýsinguna. Nei, bíddu. Það var bara ein fréttaveita. Og ein neikvæð umfjöllun sem fékk að glymja hærra en nokkur jákvæð. Við vorum sem sagt ásökuð um kvenfyrirlitningu og aldursfordóma. 

Mér er mjög mikið í mun að vera „politically correct”. Mér finnst lágmark að fólk beri virðingu fyrir hvoru öðru og hlusti þegar aðrir segja sína hlið. Allir hafa rétt á sinni skoðun svo lengi sem sú skoðun er ekki skaðleg öðrum. Það er nákvæmlega hugarfarið sem ég kúplaði mig inn í þegar ég fékk símtalið, liggjandi veik upp í rúmi heima, frá Einari nokkrum Ben sem sagði mér að reyna að hafa ekki of miklar áhyggjur af þessu. En mér finnst mikilvægt að taka mark á skoðunum fólks. Einn af mínum sterkustu eiginleikum (fyrir utan að móðga óvart miðaldra konur) er að geta horft á hlutina frá sjónarhorni annarra. Svo ég settist upp í rúminu mínu, las pistilinn sem þessi góða kona hafði skrifað og reyndi að sjá þetta frá hennar sjónarhorni. Og það tókst. Hún vaknaði þarna um morguninn, náði í Fréttablaðið sitt og sá þar mynd af miðaldra konu sem var í tómum vandræðum með spjaldtölvuna sína. Hún hefur líklega ekki séð auglýsinguna aftan á blaðinu þar sem við sjáum vandræðin sem maðurinn hennar kom sér í með snjallsímann sinn. Þetta var greinilega kornið sem fyllti mælinn hjá henni. Ég hef oft lent í því að sjá eitthvað sem fyllir mælinn minn og verða sármóðguð. 

Það sem vantaði í þessa auglýsingu framan á blaðinu var samhengi. Stóra samhengið, sem var að á eftir þessari auglýsingu koma auglýsingar þar sem við gerum góðlátlegt grín að manninum hennar og svo unga fólkinu. Konan með fulla mælinn vissi það eðlilega ekkert. En við vissum hinsvegar að þetta var bara sjúklega óheppileg tilviljun.

Allskyns athugasemdir voru gerðar við greinina sem Vísir birti, sem og við pistilinn góða. Athugasemdir eins og „Ég hef ekki séð auglýsinguna en þetta hljómar ömurlega” og „hvaða viðkvæmni er þetta, má ekkert lengur?” Við Íslendingar erum ekkert sérstaklega góð í að fara milliveginn. Eins og „ég skil hvaðan hún kemur en mér finnst þetta nú bara fyndið.” Vá, hvað væri skrítið að sjá svona heilbrigða athugasemd á kommentakerfunum. 

En spurningin „má ekkert?” dundi hæst í mínum eyrum þegar þetta kom til umræðu. Spurning sem ég hef aldrei þolað. Spurning sem fólk notar sem afsökun til að þurfa ekki að bera ábyrgð á heimskulegu hlutunum sem þau segja og gera.

Það má gera grín að öllu, það fer bara eftir brandaranum og samhenginu. Allt getur verið fyndið alveg eins og allt getur verið móðgandi. Miðaldra konur eru uppáhalds fólkið mitt. Mamma mín er miðaldra kona og hún er best. En það þýðir ekki að þar af leiðandi geri ég ekki grín að þeim eins og öðrum. Miðaldra fólki hefur heldur betur gefist frítt skotleyfi á ungu kynslóðina, hvort sem það er í gríni eða ekki. 

Ég er að stíga mín fyrstu skref í þessum bransa og hef nú þegar móðgað fleiri en ég kæri mig um, en það er bara eitthvað sem ég þarf víst að venjast. Það eina sem ég get gert er bara að vona að fólk horfi á stóra samhengið áður en það fer að splæsa í pistil.

DEILA

framleiðslustofa